Skip to main content

Drekaskátar fyrir börn fædd 2011 og 2012

Fundir: fimmtudögum kl: 17 – 18

Fyrsti fyndur: 3. september (frítt að prófa í september)

Sveitaforingjar: Brynhildur, Thelma og Laufey

Frekari upplýsingar: brynhildur@hraunbuar.is

STARF DREKASKÁTA

Skátarnir fást við margvísleg viðfangsefni á drekaskátaaldri. Þá einbeita
skátarnir sér að mestu leyti að leikjum og skemmtilegum verkefnum
sem styrkja ýmsa dýrmæta eiginleika svo sem traust, þolinmæði,
samvinnu, samkennd og sjálfsbjargarviðleitni. Á þessum yngstu árum í
skátastarfi öðlast skátarnir grunn í allskyns færni sem þau skerpa enn
fremur á efri aldursbilum. Þrátt fyrir ungan aldur eru skyndihjálp,
útieldun, rötun, náttúruvitund og útivera í ýmsum aðstæðum á meðal
þess sem drekaskátar fá að reyna.

VIKULEGIR HITTINGAR DREKASKÁTA

Yfir starfsárið hittast drekaskátar vikulega á fimmtudögum kl: 17 í
skátaheimilinu. Dagskráin er fjölbreytt yfir árið en tekur iðulega mið af
áhuga og getu hópsins ásamt árstíð hverju sinni. Á þessum vikulegu
fundum kynnast skátarnir sífellt betur og öðlast smám saman færni til
að takast á við stærri áskoranir.

VIÐBURÐIR

Drekaskátar fara gjarnan í styttri ferðir og útilegur með sínu skátafélagi
en taka síðan þátt í hluta af lengri ferðum með eldri skátum félagsins
s.s. félagsútilegum og skátamótum þar sem þau upplifa hvað bíður
þeirra á efri aldursbilum skátastarfs. Á vegum Bandalags íslenskra
skáta, landssamtaka skátafélaganna, eru árlega haldnir tveir viðburðir
fyrir drekaskáta. Drekaskátadagurinn er í mars og er dagsviðburður þar
sem drekaskátar af öllu landinu koma saman og spreyta sig á ýmsum
fjörugum áskorunum. Á hverju ári tekur eitt skátafélag viðburðinn að
sér og býður öllum drekaskátum landsins og því fer viðburðurinn fram á
ólíkum stað hverju sinni. Drekaskátamót er síðan haldið í júní á hverju
ári. Mótið er vanalega haldið á Úlfljótsvatni þar sem drekaskátar af öllu
landinu koma saman, reisa tjaldbúð, taka þátt í fjölbreyttri dagskrá og
gista eina nótt í tjaldi.

Fálkaskátar fyrir börn fædd 2008, 2009 og 2010

Fundir: mánudagar kl: 17 – 18:30

Fyrsti fyndur: 31. ágúst (frítt að prófa í september)

Sveitarforingjar: Thelma Karen og Daníel

Nánari upplýsingar: thelma-karen@hotmail.com,
daniel@hraunbuar.is

STARF FÁLKASKÁTA

Ýmislegt nýtt býðst skátum þegar þau komast á fálkaskátaaldur.
Fálkaskátar byrja að taka þátt í ýmsum félagsviðburðum, þau fara í
eigin helgarferðir með jafnöldrum í sínu félagi ásamt því að geta í fyrsta
sinn tekið þátt í ýmsum landslægum viðburðum eins og
fálkaskátadeginum og Landsmóti skáta. Á þessum aldri fá skátarnir
meiru ráðið um eigin dagskrá og geta mótað dagskráráherslur eftir því
hvar þeirra eiginn áhugi liggur en áhersla er lögð á útivist,
ferðamennsku, lýðræði, sköpun, samvinnu og samfélag. Fálkaskátar
öðlast víðtæka kunnáttu og mæta ögrandi áskorunum sem styrkja
samtímis útsjónarsemi þeirra, kjark og sjálfsöruggi.

VIKULEGIR HITTINGAR FÁLKASKÁTA

Yfir starfsárið hittast fálkaskátarnir vikulega á mánudögum kl:17 í
skátaheimilinu. Skátarnir hafa aðgengi að allskyns tilbúinni dagskrá til
að velja úr eða aðlaga eftir eigin höfði en fá einnig tækifæri til að hrinda
eigin hugmyndum í framkvæmd.

VIÐBURÐIR

Fálkaskátar fara í ýmsar ferðir. Þetta geta verið styttri dagsferðir þar
sem spennandi útivistamöguleikar í nærumhverfinu eru kannaðir og
lengri útilegur fara að skipa stærri sess í starfi fálkaskáta. Fálkaskátar
fara í félagsútilegu í október/nóvember þar sem gist er í tvær nætur í
skála. Á vorin er vormót Hraunbúa þar sem gist er tvær nætur í tjaldi.

LANDSMÓT SKÁTA

Fálkaskátar eru yngstu skátarnir sem fá að taka þátt í Landsmóti skáta
sem fer fram á fjögurra ára fresti, ýmist á Úlfljótsvatni og að Hömrum
við Akureyri. Landsmótið er vikulangt mót fyrir alla skáta 10 – 18 ára
þar sem skátafélög af öllu landinu koma saman og reisa tjaldbúð. Það
má með sanni segja að á Landsmóti sé öllu til tjaldað og er dagskrá
mótsins því jafnan hin glæsilegasta. Næsta Landsmót verður haldið á
Hömrum árið 2021.

Dróttskátar fyrir unglinga fædda 2005, 2006 og 2007

Fundir: mánudagar kl: 19 – 20:30

Fyrsti fundur: 7. september (frítt að prófa í september)

Sveitarforingjar: Sandra, Sindri, Kristján, Harpa og Erna

Nánari upplýsingar: sandra@hraunbuar.is, kristjan@hraunbuar.is

UM STARF DRÓTTSKÁTA

Fjölmargir nýir möguleikar bjóðast skátum þegar þau komast á
dróttskátaaldur. Þau geta tekið þátt í fjölda viðburða víðsvegar um
landið sem þau gátu ekki sótt áður sökum aldurs ásamt því að fá sín
fyrstu tækifæri til að ferðast á skátamót erlendis. Dróttskátar eru í
virkara samráði við sína foringja um eigið starf og hljóta þannig aukið
frelsi til að hrinda eigin hugmyndum í framkvæmd. Samhliða því vex
ábyrgð þeirra á eigin starfi og á starfinu í skátafélaginu. Margir skátar
taka sín fyrstu skref í foringjastörfum á þessum aldri og stendur því til
boða að taka þátt í ýmsum námskeiðum tengd foringjastörfum. Í
dróttskátastarfinu fá ungmenni tækifæri til að ferðast og spreyta sig á
krefjandi verkefnum í hópi jafnaldra sem að standa þétt saman í
starfinu. Þau kynnast ekki bara öðrum og ýmislegu um samskipti og
samstarf. Þau kynnast líka sjálfum sér, eigin verðugleikum og getu í
fjölbreyttu og skemmtilegu starfi. Yfir starfsárið hittast dróttskátarnir
vikulega á mánudögum kl: 19 í skátaheimilinu.

LANDSMÓT SKÁTA

Dróttskátar geta tekið þátt í Landsmóti skáta með sínu skátafélagi líkt
og fálkaskátar en á dróttskátaaldri er dagskráin ólík þeirri sem yngri
skátarnir taka þátt í. Mótið er haldið á fjögurra ára fresti, ýmist á
Úlfljótsvatni og að Hömrum við Akureyri. Landsmótið er vikulangt mót
fyrir alla skáta 10 – 18 ára þar sem skátar af öllu landinu koma saman
og reisa tjaldbúð. Það má með sanni segja að á Landsmóti sé öllu til
tjaldað og er dagskrá mótsins því hin glæsilegasta. Næsta landsmót
verður haldið á Hömrum árið 2021.