
Næstum eins og Ísland, en samt ekki.
Brekkulegan var haldin í Leirvik í Færeyjum í fyrsta sinn síðan 1983 dagana 31. júlí – 5. ágúst.
Leirvik er lítill bær á Eysturoy og þar búa rétt um eitt þúsund manns, á mótinu voru um fimm hundruð skátar svo það má ætla að mótið hafi sett svip á bæinn þessa daga sem það stóð.
Mótssvæðið var upp á Brekku eins og heimamenn nefna það, það er að segja fyrir ofan bæinn. Og vegna þess hve allt er bratt þarna eða í brekku þá bar mótið nafn með rentu. Mótsvæðið var í smá brekku og sæta þurfti lagi við að tjalda svo að vel færi um alla og það gekk glimrandi vel.
Á mótinu voru skátar frá norðurlöndunum, Skotlandi, Slóveníu, Kanada og fleiri löndum svo það má segja að mótið hafi verið alþjóðlegt þó það hafi ekki verið stórt.
Smæð mótsins gerði það að verkum að auðvelt var að kynnast skátum alls staðar að og andrúmsloftið var mjög vinalegt.
Mótið var skipulagt af skátum í Færeyjum og þau voru óþreytandi í að aðstoða okkur á alla lund.
Dagskráin var bæði ævintýraleg og skemmtileg þar sem hægt var að fara í ratleik um Leirvik, göngur um fjöllin í kring, á kanóa, veiða, síga og margt fleira.
Það voru tvö íslensk félög á svæðinu, Hraunbúar og Árbúar og voru félögin í góðu samstarfi í undirbúningi og mikill samgangur á meðan á mótinu stóð. Það er mikill fjársjóður að eiga góða vini í skátastarfinu og gott að geta unnið með öðrum félögum.
Veðráttan í Færeyjum er svipuð því sem við eigum að venjast á Íslandi nema líkur á rigningu og þoku voru í við meiri. Við vorum ágætlega heppin með veður, fengum mjög gott veður bæði þegar við vorum að setja upp tjaldbúð og taka hana niður, þess á milli var veðrið yfirleitt ágætt og þó það rigndi eitthvað og hvessti þá gerði það lítið til því Hraunbúar voru vel búnir svo að ekki væsti um þá.
Hraubúar og Árbúar fóru saman af mótinu til Þórshafnar og dvöldu þar dagpart í góðu veðri áður en haldið var á gististað nálægt flugvellinum nóttina fyrir heimferð.
Náttúran í Færeyjum er engu lík, fjöllin, hafið og veðrið. Fólkið er dásamlegt og ævintýrin sem við tökum með heim eru ógleymanleg. Við lærðum skoska dansa, tókum þátt í lokaathöfninni, eignuðumst nýja vini og hlökkum til að heimsækja Færeyjar aftur.
Hægt er að sjá fleiri myndir og myndbönd frá ferðinni á instagram @skatafelagidhraunbuar í highlights Brekka 2025
























Recent Comments