Skip to main content

FYRIR 16-18 ÁRA BÖRN, FÆDD 2005 – 2008

Fundir eru einu sinni í viku á þriðjudögum klukkan 20:00-22:00. Fyrsti fundur verður haldinn 20. ágúst 2024.

Gallía

Fundir: Þriðjudagar kl. 20:00-22:00
Sveitarforingjar: Harpa og Erna

Starf rekkaskáta

Frelsi, seigla og útsjónarsemi
Flestir vegir verða færir, áhuginn ákveðnari og margir rekkaskátar hefja vegferð sína að forsetamerkinu. Stjórn á eigin starfi verður algjör en rekkaskátar byrja líka að hafa rödd í ýmsu málefnum skátahreyfingarinnar.

ekkaskátum býðst fjöldi nýrra tækifæra í eigin starfi og byrja að spreyta sig á hinum ýmsu ábyrgðarhlutverkum innan skátahreyfingarinnar. Rekkaskátar starfa gjarnan saman þvert á skátafélög og byrja þar að auki í auknum mæli að starfa með róverskátum (19 – 25 ára). Rekkaskátum býðst að taka þátt í ýmsum spennandi viðburðum bæði innanlands og utan og byrja rekkaskátar því gjarnan að mynda tengsl við aðra skáta þvert yfir hnöttinn. Á rekkaskátaaldri byrja flestir að sinna foringjastörfum eða öðrum hlutverkum innan skátafélaganna og því er boðið upp á fjölda námskeiða í leiðtogaþjálfun. Það er gífurlega reynslu að sækja í rekkaskátastarfið, reynslu sem mun nýtast við leik og launuð störf um ókomna tíð. Í rekkaskátastarfinu eru möguleikarnir jafn margir og þeir eru ólíkir og reynslan sem hver skáti öðlast því bundin áhugasviði, áherslum og iðkun hvers og eins Í rekkaskátastarfinu eru tækifærin  endalaus, félagsskapurinn er frábær og starfið er ekki bara styrkjandi og skemmtilegt heldur kemur það líka sífellt á óvart.

Reglulegir hittingar rekkaskáta

Rekkaskátar hittast reglulega yfir starfsárið. Skátafélög hafa ólíkan hátt á hvort þetta sé á föstum tímum eða á föstum stað og í mörgum skátafélögum hittast rekkaskátar og róverskátar saman. Yngri aldursbil vinna í svokölluðum skátaflokkum þar sem 5 – 8 skátar mynda skátaflokk og starfa saman að flestu yfir starfsárið. Í rekkaskátum er hópskiptingin ekki jafn formföst, rekkaskátar taka sig saman um þá dagskrá sem þau hafa áhuga á og starfa því jafnvel í mörgum hópum samtímis og ólíkum hópum yfir árið. Rekkaskátar skipuleggja líka og framkvæma einstaklingsmiðaðri dagskrá og verkefni en áður, sérstaklega þau sem vinna að forsetamerkinu. Rekkaskátar eru færir um að halda utan um eigið starf en gjarnan er einn eða fleiri eldri skátaforingi þeim til halds og trausts. Hlutverk skátaforingjans er vera skátunum til stuðnings við að koma hugmyndum sínum í framkvæmd og leiðbeina þeim eftir þörfum, þá reynir skátaforinginn iðulega að miðla vissri kunnáttu, fræðslu og reynslu til rekkaskátanna og hvetja þau til að reyna nýja hluti í starfinu.

Viðburðir

Á rekkaskátaaldri verða skátarnir mun sjálfstæðari í að ferðast á eigin vegum og hátta ferðalögum eins og hópnum eða einstaklingnum hentar. Áfram býðst að fara í bæði lengri og styttri ferðir sem skipulagðar eru af skátafélaginu en hlutverk rekkaskáta í þeim ferðum er nokkuð annað en yngri skáta.

Útilegur rekkaskáta eru afar fjölbreyttar. Rekkaskátar innan sama skátafélags taka sig stundum saman og fara í sameiginlega helgarferð en oftar en ekki er líka farið í slíkar ferðir með rekkaskátum úr öðrum skátafélögum. Slíkar útilegur eru eins tíðar og rekkaskátar vilja vegna þess að þau skipuleggja og fara í slíkar útilegur að mestu leyti sjálf en hafa til þess aðgang að fjölda skátaskála, tjaldsvæða og öðrum spennandi útivistarsvæðum. Í þessum útilegum spreyta skátarnir sig á ferða- og fjallamennsku, fara í göngur, kynnast hvert öðru og jafnvel nýju fólki. Stundum er farið í afslappaðri útilegur þar sem megintilgangurinn er einfaldlega að njóta félagsskaps hvors annars.

Rekkaskátar fara gjarnan í félagsútilegur ásamt yngri og eldri skátum í skátafélaginu. Rekkaskátar eru iðulega elstu þátttakendur í þeim útilegum en taka líka þátt á ýmsan hátt í framkvæmd hennar í þágu yngri skáta. Félagsútilegur eru gjarnan einu sinni á önn og þar fá rekkaskátar tækifæri til að tengjast stærri hópi sem þau tilheyra innan skátafélagsins. Rekkaskátum bjóðast gjarnan tækifæri til að taka þátt í skátamótum erlendis á vegum landssamtaka skáta víða um heim, oftast fá þau ráðið hvert sé farið. Að ferðast utan á skátamót er meðal skemmtilegustu upplifana í skátastarfinu, þar gefst færi á að kynnast samhuga jafnöldrum og kynnast ólíkum menningarheimum hvers annars. Dagskrá á slíkum skátamótum er jafnan metnaðarfull og ógleymanlega skemmtileg. Það er ekki síður spennandi að upplifa hvernig skátastarf er samtímis líkt en ólíkt víðsvegar um heiminn.