Lög skátafélagsins Hraunbúa
1.0 Heiti félagsins og markmið
1.1 Nafn félagsins er Skátafélagið Hraunbúar. Lögheimili þess og varnarþing er í Hafnarfirði.
1.2 Markmið félagsins er að þroska börn og ungt fólk til að verða sjálfstæðir, virkir og ábyrgir einstaklingar í samfélaginu og starfa eftir uppeldiskerfi Baden-Powells.
1.3 Markmiði sínu hyggst félagið m.a. ná þannig:
- Með hópvinnu til að þroska samstarfshæfileika, tillitssemi, ábyrgð og stjórnunar-hæfileika.
- Með útilífi til að efla líkamsþrek og virkja áhuga á náttúrunni og löngun til þess að vernda hana.
- Með viðfangsefnum af ýmsu tagi til að kenna skátum margvísleg störf, nytsöm sjálfum þeim og öðrum, – viðfangsefnum sem hafa að markmiði kjörorð félagsins: “Ávallt viðbúinn”.
- Með þátttöku í alþjóðastarfi skátahreyfingarinnar til að gefa skátum tækifæri til að kynnast ungu fólki í öðrum löndum, háttum þess og menningu.
1.4 Skátafélagið Hraunbúar er aðili að Bandalagi íslenskra skáta og ber að starfa eftir lögum þess og reglugerðum.
1.5 Félagið starfar í samvinnu við samtök eldri skáta í Hafnarfirði og Björgunarsveit Hafnarfjarðar.
2.0 Innganga og skyldur félagsmanna
2.1 Til að gerast félagi þarf viðkomandi að vera minnst 7 ára og fá skriflegt leyfi foreldra eða forráðamanna, ef viðkomandi er yngri en 18 ára.
2.2. Hver og einn telst félagi, þegar sveitarforingi eða félagsstjórn hefur samþykkt inntökubeiðni hans. Óski einhver eftir því að hætta störfum, skal hann tilkynna það viðkomandi sveitarforingja eða starfsmanni félagsins.
3.0 Stjórnun félagsins.
3.1 Aðalfundur fer með æðsta vald félagsins, en félagsstjórn milli aðalfunda.
3.2. Aðalfund skal halda í febrúar ár hvert. Skal stjórn boða til hans með minnst mánaðar fyrirvara með auglýsingu í Hraunbyrgi og bréflega eða með tölvupóstsi til allra Hraunbúa og skal geta dagskrár.
3.3 Kosningarétt hafa starfandi skátar 16 ára og eldri, ef árgjöld þeirra er í skilum. Einnig einn forráðamaður hvers skáta undir 16 ára aldri í félaginu ef árgjöld skátans er í skilum. Enginn einn forráðamaður getur farið með fleira en eitt atkvæði á aðalfundi.Fulltrúi úr stjórn BÍS á seturétt sem áheyrnarfulltrúi á aðalfundi. Félagsstjórn er heimilt að bjóða öðrum að sitja aðalfund sem áheyrnarfulltrúar. Áheyrnarfulltrúar hafa málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt.
3.4 Verkefni aðalfundar eru:
a) Kosning fundarstjóra og fundarritara.
b) Skýrsla stjórnar.
c) Skýrslur sveita, Ferðbúans ehf og annarra eininga félagsins.
d) Umræður um framlagðar skýrslur.
e) Lagðir fram yfirfarnir ársreikningar félagsins til umræðu og afgreiðslu.
f) Lagabreytingar.
g) Kynning frambjóðenda.
h) Kosning stjórnar.
i) Kosning tveggja varamanna stjórnar
j) Kosning tveggja skoðanamanna reikninga.
k) Kosning þriggja manna í laganefnd.
l) Kosning þriggja manna í uppstillingarnefnd.
m) Kosning formanns skálanefndar.
n) Önnur mál.
3.5 Skýrsla stjórnar skal liggja fyrir fjölfölduð á aðalfundi. Yfirfarnir ársreikningar skulu lagðir fram á stjórnarfundi minnst viku fyrir aðalfund.
3.6 Stjórn félagsins skal skipuð 7 mönnum, félagsforingja, aðstoðarfélagsforingja, ritara, gjaldkera og 3 meðstjórnendum. Aðalfundur kýs stjórnarmenn til tveggja ára í senn. Hafa skal þennan hátt á kosningu:
- Félagsforingi, ritari og einn meðstjórnandi skulu kosnir annað árið.
- Aðstoðarfélagsforingi, gjaldkeri og tveir meðstjórnendur skulu kosnir hitt árið.
Stefnt skal að því að jafnan sé minnst einn stjórnarmanna kjörinn úr hópi forráðamanna starfandi skáta undir 16 ára aldri. Varamenn stjórnar eru kosnir til eins árs í senn.
3.7 Ef stjórnarmeðlimur óskar eftir því að víkja úr stjórn vegna óviðráðanlegra ástæðna tekur fyrsti varamaður sæti í stjórn og annar varamaður ef annar þarf að víkja. Varamaður tekur ávallt sæti meðstjórnenda nema full sátt sé um annað í stjórn. Víki þrír eða fleiri úr stjórn skal boða til félagsfundar.
3.8 Verksvið stjórnar eru fjármál, húsnæðismál, umsjón með eigum félagsins, svo og öðru því sem þarf til að tryggja öfluga starfsemi félagsins í samvinnu við foringjaráð félagsins.
3.9 Foringjaráð félagsins skal skipað starfandi deildar-, sveitar- og aðstoðarsveitarforingjum auk eins fulltrúa stjórnar. Foringjaráð getur boðið öðrum setu á einstökum fundum ráðsins með málfrelsi og tillögurétt.
Fyrsti fundur foringjaráðs skal haldinn eigi síðar en í vikunni fyrir kynningardag félagsins. Þar skal ráðið kjósa sér formann, ritara og siðameistara. Ritarinn gegnir störfum formanns í forföllum hans auk þess að rita fundargerðir. Siðameistari ber ábyrgð á siðum og venjum í skátastarfinu og er öðrum til aðstoðar í þeim efnum
3.10 Aðalmarkmið foringjaráðs skal vera að styrkja starf skátasveitanna og aðstoða og leiðbeina foringjum í störfum þeirra.
3.11 Félagsforingi boðar til til félagsfunda í samráði við félagsstjórn eftir því sem honum þurfa þykir. Óski 35 atkvæðisbærra Hraunbúa eða fleiri skriflega eftir að félagsfundur sé boðaður er honum skylt að verða við því og boða félagsfund eigi síðar en hálfum mánuði eftir að slík ósk er borin fram.
4.0 Innra starf félagsins
4.1 Félagsforingi skipar deildar- og sveitarforingja að fengnum tillögum stjórnar, foringjaráðs eða starfsmanna. Sveitarforingjar skipa flokksforingja.
4.2 Foringjaráð félagsins fer með almenna stjórnun og skipulagningu á innra starfi félagsins í samráði við stjórn félagsins. Ákvarðanir foringjaráðs mega þó ekki vera gegn vilja eða stefnu stjórnar.
5.0 Annað.
5.1 Aðalfundur félagsins ákveður árgjöld félagsins hverju sinni og sér starfsmaður félagsins eða gjaldkeri um innheimtu þeirra. Reikningsár félagsins er almanaksárið.
5.2 Afl atkvæða ræður úrslitum mála á fundum, nema öðruvísi sé ákveðið í lögum þessum.
5.3 Ákveði aðalfundur að félagið skuli hætta störfum, eða hætti það störfum með öðrum hætti, skulu eignir þess fengnar æðstu stjórn BÍS til varðveislu, þar til skátafélag verður stofnað að nýju í Hafnarfirði.
5.4 Lögum þessum verður aðeins breytt á aðalfundi og skulu tillögur að lagabreytingum vera skriflegar og berast stjórn þremur vikum fyrir aðalfund. Laganefnd skili tillögum sínum til lagabreytinga til stjórnar viku fyrir aðalfund og skulu þá framlagðar tillögur liggja frammi í Hraunbyrgi til sýningar. Tveir þriðju hlutar kosningabærra fundarmanna skulu a.m.k. greiða atkvæði með lagabreytingum svo þær öðlist gildi.
5.5. Lög þessi öðlast þegar gildi.
Lög þessi voru samþykkt á aðalfundi Hraunbúa 26. febrúar 2015.