Afhverju skátabúningur?
Hermannabúningur, einkennisbúningur, punt, prjál, allt eru þetta hugtök sem hafa verið notum um skátabúninginn og notkun hans. Þegar Baden Powell lagði grunninn að skátastarfinu taldi hann nauðsynlegt að það sæist ekki á klæðaburði þeirra hvort þeir kæmu frá fátækum heimilum eða efnuðum. Skátastarfið væri fyrir alla og í skátastarfi væru allir jafnir.
Mörgum kann að þykja þetta haldlítil rök í dag, en við skulum líta aðeins á nokkrar staðreyndir. Ísland hefur nokkra sérstöðu hvað stéttaskiptingu varðar, sagt er að ekki finnist stéttaskipting á Íslandi, allavega ekki á sama hátt og í mörgum öðrum þjóðlöndum. En hér er fólk mis efnað, það eru ekki allir sem geta leyft sér að klæða börn sín í svokalla merkjavöru. Þegar börn hittast er samanburður í klæðnaði auðveldur. Skátabúningurinn á að hindra að þessi samanburður geti farið fram eða í það minnsta minnka líkurnar á því. En það er fleira sem mælir með notkun skátabúningsins, í dag er skátabúningurinn um fram allt sameiningartákn og sem slíkur kemur hann að miklum notum. Reynslan hefur sýnt það að starf í skátahóp þar sem allir eru í skátabúningi er allt annað en hjá þeim sem ekki eru í búningi eða fáir.
En af hverju lítur búningurinn svona út eins og hann gerir? Upprunalegi búningurinn var hermannaskyrta, þríhyrna og skátahattur. Baden Powell tók þá mið af notagildi þessara hluta og nýtti sér þá reynslu sína úr hernaði. Frá þessum tíma hefur búningurinn ekki breyst mikið, form og litir hafa breyst, mismikið eftir löndum. Skátaklúturinn er alls staðar notaður enda hlutur sem hefur mikið notagildi. Búningurinn getur breyst í takt við tíðarandann á hverjum stað og má t.d. nefna að merki á búninginn urðu mjög óvinsæl fyrir tuttugu árum og þóttu þau um of minna á hermennsku. Í dag hafa vinsældir merkjanna aukist, sérstaklega meðal yngri skáta enda geta þau verið mikil hvatning fyrir þá í starfi. Þessi merki eru flest prófmerki sem skátinn hefur unnið til en viðurkenningar og þess háttar merki eru sjaldan borin nema við hátíðleg tækifæri og þá aðeins eitt merki í einu.
Í dag eru skátar stoltir af skátabúningnum, þeir hafa lagt sitt af mörkum til þess að fá ða nota hann og vita að hann leggur ábyrgð á þeirra herðar. Fólk hefur vissar væntingar til skáta sem hann reynir að uppfylla jafnvel þótt þessar væntingar séu oft á tíðum ansi miklar.
Úr Hraunbúanum 1991. 2.tbl 10. árg