Skip to main content

FYRIR EINSTAKLINGA 19-25 ÁRA , FÆDD 1999-2005.

Fundir eru einu sinni í viku á þriðjudögum klukkan 20:00-22:00. Fyrsti fundur verður haldinn 20. ágúst 2024.

Rs Trail

Fundir: Þriðjudagar kl. 20:00-22:00
Sveitarforingjar: Harpa og Erna

UM STARF RÓVERSKÁTA

Róverskátar nefnist elsta aldursbil þátttakenda í skátastarfi um víða veröld. Aldursbilið er ekki bara alþjóðlegt að fyrirmynd heldur er starf róverskáta einnig alþjóðlegt og tækifærin í alþjóðastarfi á vegum skátahreyfingarinnar gífurlega mörg. Róverskátar sinna flestir einhverjum ábyrgðarstöðum ýmist innan skátafélaganna eða á breiðari vettvangi skátahreyfingarinnar á Íslandi. Markmið skátastarfs er að valdefla ungmenni og þannig gefst róverskátum færi að spreyta sig á verkefnastjórnun, viðburðahaldi, stjórnarsetu og ýmsum öðrum spennandi tækifærum sem bjóðast sjaldnar utan skátastarfs. Á róverskátaaldri eru skátar orðnir færir um að hrinda öllum sínum hugmyndum í framkvæmd, sama hvort þær snúi að þeirra eigin starfi eða annarra og til þess hafa róverskátar eins greiðan aðgang sem og að aðbúnaði skátahreyfingarinnar. Í róverskátunum er félagskapurinn alþjóðlegur, viðfangsefnin krefjandi, getan gífurleg og tækifærin því endalaus. Fjölmargir hefja skátastarf ekki fyrr en á róverskátaaldri þrátt fyrir að hafa aldrei tekið þátt í skátastarfi áður og fyrir þeim opnast nýr heimur ævintýra og upplifana.

VIÐBURÐIR Á VEGUM SKÁTAFÉLAGSINS

Ferðalög og útilegur á róverskátaaldri eru með talsvert öðrum hætti en á yngri aldursbilum. Róverskátar eru fyllilega fær um að skipuleggja og fara í flestar ferðir sjálf fremur en að ferðir séu skipulagðar fyrir þau. Róverskátar hafa tækifæri að njóta til fulls alls þess sem býðst í ferða- og fjallamennsku á Íslandi og geta líka leitað ævintýranna utan landsteina. Róverskátar hafa gott aðgengi að ýmsum skálum og útivistarsvæðum víðsvegar um Ísland og því er eins farið í útlöndum. Í þessum ferðum spreyta róverskátar sig oft á nýrri og krefjandi dagskrá en stundum er megintilgangurinn einfaldlega að njóta félagsskapar hvers annars, bæði í innlendu og alþjóðlegu samhengi.

VIÐBURÐIR Á VEGUM BÍS

Á vegum Bandalags íslenskra skáta (BÍS), landssamtaka skátafélaganna, geta róverskátar tekið þátt í ýmsum viðburðum en umgjörð þessara viðburða er önnur en þeirra viðburða sem bjóðast yngri skátum. Meiri áhersla er lögð á leiðtogaþjálfun og margir viðburðir snúa að mótun og ákvörðanatöku fyrir starf skátahreyfingarinnar á Íslandi. Oft standa róverskátar sjálfir fyrir viðburðum þar sem þeir bjóða jafnöldrum úr öðrum skátafélögum og tryggja þannig enn betur að spennandi viðburðir standi til boða fyrir sitt aldursbil.

 

LANDSMÓT SKÁTA

Róverskátar geta farið sem sjálfboðaliðar á Landsmót skáta. Mótið er haldið á fjögurra ára fresti, ýmist á Úlfljótsvatni og að Hömrum við Akureyri. Landsmótið er vikulangt mót fyrir alla skáta 10 – 18 ára þar sem skátar af öllu landinu koma saman og reisa tjaldbúð. Það má með sanni segja að á landsmóti sé öllu til tjaldað og er dagskrá mótsins hin glæsilegasta. Róverskátar eru oft í fararstjórn skátafélaganna sem undirbýr ferðina á mótið, skipuleggur tjaldbúð og búnað félagsins á mótinu, sinnir fjáröflunum og ferðast með yngri skátum í félaginu á mótið. Róverskátar geta líka gerst sjálfboðaliðar fyrir mótstjórn. Þau sem hafa ánægju af því að fá frábærar hugmyndir og sjá þær verða að veruleika geta komið að undirbúningi mótsins á meðan þau,sem finnst skemmtilegra að hoppa beint í iðustrauminn, geta komið að framkvæmd mótsins.

ALÞJÓÐASTARF

Alþjóðastarf býður róverskátum risastór tækifæri. Ýmis skátamót sem sérstaklega eru ætluð róverskátum eru haldin reglulega um allan heim. Róverskátar geta líka gerst alþjóðlegir þjónustuliðar á öllum helstu alþjóðlegum mótum ætluð yngri skátum. Tækifæri til sjálfboðastarfa á alþjóðavísu bjóðast róverskátum líka sérstaklega, alþjóðlegar nefndir bæði innan og utan skátahreyfingarnar skipa róverskáta í vissan fjölda sæta, vissum ábyrgðarhlutverkum skátahreyfingarinnar geta eingöngu róverskátar sinnt og skátamiðstöðvar um allan heim bjóða róverskátum spennandi störf til skemmri og lengri tíma. Alþjóðaráð BÍS er síðan afar duglegt að leita uppi og miðla áfram til róverskáta viðburðum sem bjóðast í samstarfi við önnur landssamtök skáta þar sem þátttaka skátanna er gjarnan styrkt fjárhagslega af ýmsum sjóðum.

EINKENNI RÓVERSKÁTA

Klútur róverskáta er grár og festur með skátahnút sem skátarnir útbúa sjálfir eða bundinn með vinahnút. Klútinn fá skátarnir afhentan til að marka að þau séu vígðir meðlimir í skátahreyfingunni og hafi lokið vígslugrunni síns aldursbils. Vígslugrunnur róverskáta er að vinna skátaheitið, þekkja kjörorð skáta og tileinka sér allar tíu greinar skátalaganna:

 

SKÁTALÖG RÓVERSKÁTA

Skáti er hjálpsamur
Skáti er glaðvær
Skáti er traustur
Skáti er náttúruvinur
Skáti er tillitssamur
Skáti er heiðarlegur
Skáti er samvinnufús
Skáti er nýtinn
Skáti er réttsýnn
Skáti er sjálfstæður

Aldursmerki róverskáta er þríhyrningslaga og er saumað aftan á klútinn. Merkið er fjólublátt og ísaumur merkisins og brún þess er gyllt.