Drekaskátar fyrir börn fædd 2011 og 2012

Fundir: fimmtudögum kl: 17 – 18

Fyrsti fyndur: 3. september (frítt að prófa í september)

Sveitaforingjar: Brynhildur, Thelma og Laufey

Frekari upplýsingar: brynhildur@hraunbuar.is

STARF DREKASKÁTA

Skátarnir fást við margvísleg viðfangsefni á drekaskátaaldri. Þá einbeita
skátarnir sér að mestu leyti að leikjum og skemmtilegum verkefnum
sem styrkja ýmsa dýrmæta eiginleika svo sem traust, þolinmæði,
samvinnu, samkennd og sjálfsbjargarviðleitni. Á þessum yngstu árum í
skátastarfi öðlast skátarnir grunn í allskyns færni sem þau skerpa enn
fremur á efri aldursbilum. Þrátt fyrir ungan aldur eru skyndihjálp,
útieldun, rötun, náttúruvitund og útivera í ýmsum aðstæðum á meðal
þess sem drekaskátar fá að reyna.

VIKULEGIR HITTINGAR DREKASKÁTA

Yfir starfsárið hittast drekaskátar vikulega á fimmtudögum kl: 17 í
skátaheimilinu. Dagskráin er fjölbreytt yfir árið en tekur iðulega mið af
áhuga og getu hópsins ásamt árstíð hverju sinni. Á þessum vikulegu
fundum kynnast skátarnir sífellt betur og öðlast smám saman færni til
að takast á við stærri áskoranir.

VIÐBURÐIR

Drekaskátar fara gjarnan í styttri ferðir og útilegur með sínu skátafélagi
en taka síðan þátt í hluta af lengri ferðum með eldri skátum félagsins
s.s. félagsútilegum og skátamótum þar sem þau upplifa hvað bíður
þeirra á efri aldursbilum skátastarfs. Á vegum Bandalags íslenskra
skáta, landssamtaka skátafélaganna, eru árlega haldnir tveir viðburðir
fyrir drekaskáta. Drekaskátadagurinn er í mars og er dagsviðburður þar
sem drekaskátar af öllu landinu koma saman og spreyta sig á ýmsum
fjörugum áskorunum. Á hverju ári tekur eitt skátafélag viðburðinn að
sér og býður öllum drekaskátum landsins og því fer viðburðurinn fram á
ólíkum stað hverju sinni. Drekaskátamót er síðan haldið í júní á hverju
ári. Mótið er vanalega haldið á Úlfljótsvatni þar sem drekaskátar af öllu
landinu koma saman, reisa tjaldbúð, taka þátt í fjölbreyttri dagskrá og
gista eina nótt í tjaldi.